Hvers vegna spilið þið á höfuðborgarsvæðinu?

Nú er ég alveg hætt að skilja umræðuna.  Fjöldinn allur af kynferðisbrotum kom á borð lögreglu á höfuðborgarsvæðinu á síðasta mánuði.  Sama og engin umfjöllun í fjölmiðlum samt. Hvers vegna neitið þið þá ekki að spila tónlistina ykkar á höfuðborgarsvæðinu strákar?

Hvers vegna þarf að fjalla jafnóðum um nauðganir á útihátíðum og gefa þar með gerendum tækifæri til að stinga af og láta sig hverfa?

Hverra hagsmuna er verið að gæta með því að hlaupa með þessa hræðilegu glæpi jafnóðum í fjölmiðla?  

Spyr sá sem ekki veit. Grunar samt að þarna sé ekki verið að gæta hagsmuna þolenda.  Þeir eru í sárum og þurfa að ganga í gegnum langan feril til að tryggja rannsóknarhagsmuni og síðan í átt til einhvers bata.  Þolendur hafa enga hagsmuni af því að útvarpa þessum glæpum jafnóðum.  

Gefum lögreglu tækifæri til að upplýsa málin áður en hlaupið er af stað með fyrirsagnir í blöðunum sem þjónar engum nema fjölmiðlum sjálfum því svona fyrirsagnir selja. Gerendum kynferðisofbeldis þætti trúlega heldur ekkert verra að fá upplýsingar jafnóðum.  Taka kannski næstu ferju heim?

Við hin þurfum ekkert að lesa þessar fyrirsagnir fyr en eftir helgina.  Við bíðum ekki eftir því að lesa um nauðganir og annað ofbeldi. Við bíðum aftur á móti eftir því að þessi mál leysist því við viljum sjá þessa gerendur svara til saka fyrir gjörðir sínar.

Ég er ótrúlega stolt af lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum. Hún er ein af fáum sem hefur þorað að standa uppi í hárinu á fjölmiðlum og sett hagsmuni þolenda í fyrsta sæti.  Við hin styðjum þig Páley:)

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband